Listmeðferð Unnar

Frábær vika í Vilníus að baki þar sem ég sótti ráðstefnuna “MINNI: mótun tengsla í listmeðferðum“. Margt athyglisvert kom fram á ráðstefnunni, eins og hvernig konur til dæmis í Afríku sem hafa verið beittar ofbeldi, koma saman til að sauma út og segja sögurnar sínar sem valdeflir þær svo þær geta færst frá því að vera fórnarlömb til þess að halda áfram lífi sínu og taka þátt í samfélaginu (leiðbeinandi: Tally Tripp frá USA). Ég flutti fyrirlesturinn „Unnið úr tilfinningum og námsefni lagt á minnið með minnisteikningu“ þar sem ég fjallaði um hvernig börn geta tjáð djúpstæðar og erfiðar minningar í gegnum teikningar og eins hversu gífurlega áhrifaríkt er að teikna til að muna.

Vilníus er falleg borg, fólkið vinalegt og maturinn góður. Ánægjulegt var að vera þar í liðinni viku með um 200 listameðferðafræðingum víðs vegar frá heiminum.

Facebook

Í morgun flutti ég fyrirlesturinn „Listmeðferð og minnisteikning fyrir börn sem eiga við námsörðugleika að stríða og hafa orðið fyrir áföllum og/eða upplifað mikið álag“ á Landspítalaunum. Barna- og unglingageðdeild (BUGL). Þátttakendurnir voru sumir á staðnum og aðrir tóku þátt í gegnum fjarfundarbúnað. Það var virkilega gefandi að tala um rannsóknir mínar og meðferðar störf við starfsfólk spítalans sem virtist skilja málefnið vel.

Einnig gafst mér tækifæri til að skoða aðstöðu listmeðferðarfræðinganna sem vinna á BUGL en þær eru Íris Ingvarsdóttir, Katín Erna Gunnarsdóttir og Carolina Kindler.

Facebook

Sýningin verður framlengd þar til að kvöldi 20. ágúst og verður opið á Menningarnótt. Opnunartímar eru fimmtudag og föstudag 14.00-17.00 og á Menningarnótt 20. ágúst kl 14.00-22.00. Hjartanlega velkomin.

Litaóm og gleðiganga í dag. Við Rán Jónsdóttir og Ólöf Benediktsdóttir opnuðum sýninguna „Litaóm“ í Grafíksalnum í dag. Fjallar sýningin um hljóð, liti og tilfinningar. Ánægjulegt var að deila verkinu mínu „Líðan í litum“ með áhorfendunum sem bættu um betur með þátttöku sinni sem fólst m.a. í því að finna og deila líðan í litum. Takk öll hjartanlega fyrir komuna og þátttökuna. Sýningin er í Grafíksalnum, Tryggvagötu 17, Reykjavík (Hafnarhúsið, gengið inn hafnarmegin) og stendur hún yfir til 20. ágúst. Opnunartímar eru fimmtudagur til sunnudags kl. 14.00-17.00. Öll hjartanlega velkomin.

Facebook

Með þakklæti og trega tilkynni ég að minn kæri kennari, handleiðari og leiðbeinandi dr. Arthur Robbins er fallinn frá. Art var einn af frumkvöðlum listmeðferðar og starfaði hann sem prófessor við Pratt Institute þar sem ég lauk meistaranámi í listmeðferð. Í yfir 30 ár gegndi hann mikilvægu hlutverki í námi mínu, listmeðferðarstarfi, rannsóknarstörfum og úrvinnslu tilfinninga. Leiðbeindi hann mér við doktorsritgerð mína þar sem send voru óteljandi föx með teikningum og texta frá Reykjavík og London til New York. Las hann þolinmóður textann fyrir mig, skoðaði teikningarnar, kom með athugasemdir og ræddum við bæði rökrænu- og tilfinningaþættina. Art var hlýr, velviljaður, greindur, vel lesin og hafði djúpt innsæi í sálarlíf og táknræna listsköpun hverrar manneskju. Brún augu hans sáu lengra en augnatillit flestra og hafði hann einstakt lag á að skilja djúpa munnlegra og táknræna merkingu í tjáningu fólks. Margt af kennslu Arts lifir enn með mér og mun alltaf gera s.s. mikilvægi speglunarinnar í meðferðinni. Eins hvernig möglulegt er að mynda tengingu við einstaklinga sem hafa farið á mis við önnur traust tengsl. Einnig að viljinn til að bæta fyrir mistök í samböndum sé eitt af grunnstoðurm mannlegra tengsla. Að auki að andi þeirra sem við umgöngumst lifir innra með okkur þá svo að tengingin sér rofin af einhverjum orsökum eins og hún gerir nú þegar Art er ekki lengur með okkur hér á jörðu. Ég er full af þakklæti fyrir tengslin og samskiptin við Art og þá visku sem hann færði mér í gegnum árin í ýmsu samhengi. Art skrifaði fjölda rita um meðferð og lifir andi hans í orðum bóka hans sem við sem eftir sitjum erfum. Kærar þakkir Art fyrir allt sem þú gafst mér og okkur hinum með tilveru þinni. Innilegar samúðar kveðjur til yndislegrar konu þinnar Sandy, barna ykkar og barnabarna. Hvíl í friði.

listsköpunogsamvinna

ÖLLUM TIL HEILLA samtal um samfélagslistir

Fjallað verður m.a. um nýja námsbraut í opinni útsendingu á netinu 16. mars kl. 12:00. Aðgangur að viðburðinum er frír og öllum opinn. Hér er hlekkur á viðburðinn.

Linkur á upplýsingar á vef ReyjkavíkurAkademínnar sem stendur fyrir viðburðaröðinni.

Listaháskóli Íslands lauk sumarið 2021 Erasmus+ verkefninu SWAIP (e. Social inclusion and Well-being through the Arts and Interdisciplinary Practices) sem unnið var í samvinnu við sex aðrar háskólastofnanir í Evrópu. Afraksturinn er ný námslína á meistarastigi við listkennsludeild LHÍ sen áætlað að hefjist haustið 2023. Námið er sniðið að listamönnum, listkennurum og heilbrigðisstarfsfólki með bakgrunn í listum

Í stýrihóp verkefnisins voru dr. Kristín Valsdóttir, deildarforseti listkennsludeildar, dr. Halldóra Arnardóttir og dr. Unnur Óttarsdóttir. Halldóra er listfræðingur og verkefnastjóri verkefnisins: Listir og menning sem meðferð. Halldóra hefur stýrt fjölmörgum verkefnum þar sem unnið er með listir og menningu með það að markmiði að efla lífsgæði Alzheimersjúklinga. Unnur sem er listmeðferðarfræðingur og myndlistarkona hefur starfað sem meðferðafræðingur og rannsakandi á því sviði í ReykjavíkurAkademíunni, jafnframt því að stunda myndlist. Rannsóknir Unnar hafa einkum beinst að notkun teikninga til úrvinnslu minninga og til að leggja á minnið.

Í málstofunni verður SWAIP námsbrautin kynnt og þær Unnur og Halldóra kynna aðferðir sínar og rannsóknir sem m.a. lágu til grundvallar hugmyndafræði námsbrautarinnar.

Þá talar tónlistarkonan Sigrún Sævarsdóttir Griffiths sem starfrækir fyrirtækið Metamorphonics þar sem aðferðir skapandi tónlistarsamvinnu eru notaðar til að valdefla jafnt faglært sem ófaglært tónlistarfólk víða um heim.

DAGSKRÁ

Sigrún Sævarsdóttir Griffiths, tónlistarkona og kennari við Guildhall School of Music and Drama og LHÍ:
Máttur tónlistar til að tengja og efla.

Dr. Halldóra Arnardóttir, listfræðingur og verkefnastjóri:
Listir og menning sem hugarefling við Alzheimersjúkdómnum.

Dr. Unnur Óttarsdóttir, listmeðferðarfræðingur og myndlistarkona:
Samteikning og minnisrannsóknir í ljósi listmeðferðar.

Dr. Kristín Valsdóttir, deildarforseti listkennsludeildar LHÍ:
Listir og inngilding: Ný námslína.

Gestgjafi: Magnea Tómasdóttir, söngkona og stundakennari við LHÍ.

Viðburðurinn er hluti af samstarfsverkefninu ÖLLUM TIL HEILLA sem haldin er af ReykjavíkurAkademíunni í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands, Listahátíð í Reykjavík, Listaháskóla Íslands, Borgarleikhúsið, Reykjavíkurborg og List án landamæra. Viðburðaröðinni er ætlað er að vekja athygli á áhrifamætti samfélags- og þátttökulista við valdeflingu og inngildingu.

Nánar um ÖLLUM TIL HEILLA og SWAIP

Á heimasíðu ReykjavíkurAkademíunnar:
https://www.akademia.is/ollum/
https://www.akademia.is/fyrirlesari/swaip/

Á heimasíðu Listaháskóla Íslands:
https://www.lhi.is/.../ollum-til-heilla-listskopun-og...
https://swaipproject.lhi.is/

Gagnagrunnsvefsíða: http://swaip.lhi.is/

unnur minnisteikning

Langar þig að lifa í sátt við minningar þínar og lífsreynslu? Viltu muna atvik sem hafa gleymst? Óskar þú eftir að komast í dýpri snertingu við sjálfa þig og minningar þínar? Viltu sættast við að hafa gleymt? Úrvinnsla minninga og jafnvel sátt við að muna ekki getur leyst úr læðingi orku til að halda lífinu áfram og skapa nýjar eftirminnilegar minningar í núinu.

Á Minnissmiðjunni er þátttakendum gefin kostur á að tjá og fjalla um minningar sínar í gegnum listsköpun, skrif, munnlega tjáningu og samtal. Tækifæri gefst til að vinna með tilfinningar tengdum liðnum atvikum.  Umfjöllun um minningar liðins tíma getur aukið sátt við fortíðina.

Mögulegt er að vinna með tilfinningar tengdum gleymdum atvikum og í sumum tilfellum getur það  hjálpað við að muna. Þegar hlustað er á aðra segja frá minningum þá getur rifjast upp eigin reynsla.

Óunnar og ótengdar tilfinningar og minningar geta valdið því að einstaklingurinn endurskapar líf sitt á óæskilegan hátt í takt við atburði og minningar sem heyra fortíðinni til. Með því að komast í snertingu við og vinna úr tilfinningum og minningum gefst tækifæri til að skapa líf sem byggist á eigin vilja en ekki endurtekningum fortíðarinnar. Á námskeiðinu verða rifjaðar upp og unnið með góðar og slæmar minningar og allt þar á milli sem getur aukið vellíðan, styrk og sátt við lífshlaupið.

Á námskeiðinu verður veitt fræðsla um minnið og minningar.

Námskeiðið fer fram á miðvikudögum kl 19.00 - 22.00 dagana 2., 9., 16., 23., og 30. nóvember og 7. desember í Listmeðferð Unnar, Síðumúla 34, 3. hæð.

Námskeiðisgjald er: kr. 69.000.-

Námskeiðið fer fram á ensku og er það ætlað listmeðferðarfræðingum og nemum í
listmeðferð alls staðar frá í heiminum.

Námskeiðið byggist á fyrirlestrum, umræðum, lestri, handleiðslu og listsköpun. Miðlað er þekkingu um kenningar og aðferðir námslistmeðferðar sem innifelur skrifmyndir og minnisteikningu. Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa hug á að tengja skrifmyndir og minnistekningu inn í listmeðferð.

Tímasetningar:

5. nóvember kl 11.00 - 14.00
19. nóvember kl 11.00 - 14.00
3. desember kl 11.00 - 14.00
14. janúar kl 11.00 - 14.00
28. janúar kl 11.00 - 14.00
11. febrúar kl 11.00 - 14.00

Höfundaréttur © 2022 · Allur réttur áskilin · Óheimilt er að nota efni síðunnar án leyfis.
cartmagnifierchevron-down linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram