Listmeðferð Unnar

Vinnusmiðjan er framhald af Rannsóknaraðferðafræði, fyrirlestri II: Listmeðferðarrannsóknir, grunduð kenning og teiknaðar skýringarmyndir. Þátttakendum er boðið að taka þátt í skapandi verkefni, sem veitir tækifæri til að öðlast reynslubrot af þeim möguleikum sem listsköpun veitir í þágu rannsókna. Þátttakendur beita sjálfsprottinni og frjálsri listsköpun í tengslum við rannsóknaráhuga og rannsónarverkefni sín til þess að gera ósýnilegt efni og samhengi sýnilegt, og til að auka þol gangvart óvissu og örva skapandi hugsun ásamt því að finna lausnir á rannsóknarverkefnunum. Þetta felur meðal annars í sér teiknaðar örvar, ferhyrningi, hringi, tengingarlínur, orð og myndir í tengslum við rannsóknaráhuga og rannsóknarverkefni. Hvorki er þörf á fyrri reynslu né þekkingu af listsköpun. Nauðsynlegt er að þátttakendur hafi sótt Rannsóknaraðferðafræði, fyrirlestur II: Listmeðferðarrannsóknir, grunduð kenning og teiknaðar skýringarmyndir.

Rannsóknaraðferðarfræði vinnusmiðja

Vinnusmiðjan áður haldin

2014 Grunduð kenning: Rannsókn í listmeðferð og teiknaðar skýringarmyndir. Vinnusmiðja fyrir nemendur í listmeðferð. University of Hertfordshire, Englandi.

Endurheimta námsfærni með skrifmyndum

Í fyrirlestrinum er fjallað um:

Fyrirlestur áður fluttur

2014 Nú er námsfærni endurheimt með skrifmyndum. H-21 Hugmyndir 21. aldarinnar. Málþing ReykjavíkurAkademíunnar. Sótt á: https://vimeo.com/143387243.

Myndlistar og rannsókna samband

Í erindinu er fjallað um hvernig óhlutbundin hugsun, eins og sú sem fer fram við sköpun myndlistar, getur nært og frjóvgað störf rannsakenda og fræðimanna. Fjallað er um sameiginlega eiginleika fræðimanna og listamanna þegar sköpuð er ný þekking, verk eða kenning. Myndlist byggist oft og iðulega á rannsóknum og óskipulögðum athugunum á viðfangsefninu sem fela í sér til dæmis skissugerð. Myndlistaverkin geta verið ný þekking byggð á þess konar rannsóknum. Í erindinu er fjallað um samband myndlistar og rannsókna í tengslum við samvinnulistaverk.

Fyrirlestur áður fluttur

2013 Frjó fræðimennska – fræðileg myndlist. Fyrirlestur fluttur í Listaháskóla Íslands á ráðstefnu um tengsl listsköpunar og rannsókna: Hugarflug, Reykjavík.

Grundaðrar kenningar

Í fyrirlestrinum er fjallað um skapandi aðferðir listmeðferðar sem beitt er í tengslum við rannsóknir. Einnig er farið yfir aðferðafræði grundaðrar kenningar sem beitt var til að greina gögn í listmeðferðarrannsókninni.

Markmið rannsóknarinnar var að hanna, rannsaka og prófa meðferðaraðferð sem auðveldar nám og eykur tilfinningalega vellíðan hópsins sem valinn var til þátttöku í rannsókninni. Í gegnum rannsóknina myndaðist meðferðaraðferð sem nefnist „námslistmeðferð“.

Sköpun er óaðskiljanlegur þáttur bæði listmeðferðarferilsins og aðferða grundaðrar kenningar. Teiknaðar skýringarmyndir sem eru hluti af aðferð grundaðrar kenningar eru sjónræn framsetning sem dregur upp mynd af hugmyndum í formi línurita, skýringarmynda og teiknaðra mynda. Í fyrirlestrinum er fjallað um teiknaðar skýringarmyndir í tengslum við listmeðferðarrannsóknina. Örvar, ferhyrningar, hringir, tengingarlínur, orð og myndir eru teiknaðar í skýringarmyndunum sem gera ósýnilegt efni og samhengi sýnilegt. Teikning skýringarmynda örvar skapandi og óhlutbundna hugsun, sem og hugmyndaauðgi. Í fyrirlestrinum er einnig fjallað um myndir sem beitt er til þess að dýpka skilning á hugmyndum og fyrirbærum og til að vinna úr tilfinningum. Rannsóknir krefjast þolgæði hvað varðar að dvelja í óvissu og teiknuðu skýringarmyndirnar geta skapað rými þar sem auðveldara getur reynst að höndla óvissuna.

Grunduð kenning með teiknuðum skýringarmyndum

Í erindinu er fjallað um grundaða kenningu með áherslu á teiknaðar skýringarmyndir sem eru áþreifanlegar myndir af hugmyndum í formi korta, línurita eða teiknaðra mynda. Skýringarmyndir líkjast minnisblöðum en í stað þess að vera skrifaður texti eru þær myndræn framsetning á áþekku hugsunarferli. Markmiðið með skýringarmyndunum er að dýpka skilning á fyrirbærum, móta hugtök og gera lýsingu óhlutbundna ásamt því að sjá samhengi mismunandi fyrirbæra, flokka og hugtaka. Með notkun blýants, penna og/eða lita við gerð skýringarmynda, sem meðal annars eru byggðar á orðum, örvum, ferhyrningum, hringum og tengingarlínum, örvast hugarflug og innsæi. Í erindinu eru tekin dæmi úr listmeðferðarrannsókn, þar sem teiknaðar skýringarmyndir voru notaðar. Skýringarmyndir geta lyft viðfangsefninu á óhlutbundið svið sem auðveldar kenningasmíð. Rýmið sem verður til í teiknuðum skýringarmyndum örvar skapandi hugsun þar sem nýtt samhengi er uppgötvað og nýjar tengingar koma í ljós.

Fyrirlestur áður fluttur

2012 Grunduð kenning með teiknuðum skýringarmyndum. Fyrirlestur fluttur í Listaháskóla Íslands á ráðstefnu um tengsl listsköpunar og rannsókna: Hugarflug, Reykjavík.

2010 Grunduð kenning sem rannsóknaraðferð. Fyrirlestur fluttur á fjórða samræðuþingi um eigindlegar rannsóknir við Háskólann á Akureyri, Akureyri.

Í fyrirlestrinum er fjallað um hvernig teikningar auðvelda minni. Tekið er dæmi úr eigindlegri tilfellarannsókn sem sýnir hvernig mögulegt er að nýta minnisteikningar samhliða í meðferð og námi. Fjallað er um megindlega rannsókn sem sýndi að börn mundu að jafnaði fimm sinnum fleiri myndir sem þau höfðu teiknað heldur en orð sem þau höfðu skrifað níu vikum áður. Áheyrendum gefst tækifæri til að taka þátt í einfaldri teikni- og skrifæfingu sem gefur innsýn í mismunandi minnisaðferðir og hvernig þær virka fyrir einstaklinginn. Eins gefur æfingin mynd af því hvernig rannsóknin var framkvæmd og hvernig hægt er að nýta teikningar til að efla minni.

Í fyrirlestrinum eru minnisteikningar settar í samhengi við kenningar listmeðferðar, sálfræði, kennslu og kennslusálfræðimeðferðar. Fjallað er um hvernig viðkvæmar og flóknar tilfinningar geta komið upp á yfirborðið við minnisteikninguna og hvernig mögulegt er að vinna úr þeim í gegnum myndsköpunarferlið. Gerð er grein fyrir mikilvægi aðferða og kenninga listmeðferðar, meðal annars varðandi tilfinningalegan stuðning fyrir þann sem gerir minnisteikningu.

Ummæli

„Ég kunni mjög vel að meta aðalfyrirlestur þinn á Norrænu listmeðferðarráðstefnunni og tel að minnisteiknunarrannsóknin sem þú vinnur að sé afar áhugaverð og mikilvæg. Þegar ég kom heim las ég greinina þína í Tímariti félags amerískra listmeðferðafræðinga (AATA Journal).”

Lisa D. Hinz, PhD, ATR-BC stjórnarmaður í siðarnefnd Félags amerískra listmeðferðafræðinga (AATA).

Ummæli þátttakenda á fyrirlestri Félags Listmeðferðarfræðinga í Ameríku 2019:

Fyrirlestur áður fluttur

2019 Processing Emotions and Memorising Coursework through Memory Drawing (Unnið úr tilfinningum og námsefni lagt á minnið með minnisteikningu). Fyrirlestur fluttur á ráðstefnu Félags Listmeðferðarfæðinga í Ameríku. Celebrating 50 Years of Healing Through Art. Kansas City, MO.

2019 Processing Emotions and Memorising Coursework through Memory Drawing (Unnið úr tilfinningum og námsefni lagt á minnið með minnisteikningu). Fyrirlestur fluttur á alþjóðlegri ráðstefnu um rannsóknir í listmeðferð (The International Practice/Research Conference) í Queen Mary’s University, London.

2018 Research on Processing Emotions through Memory Drawing. Opinn fyrirlestur fluttur í Goldsmiths-háskóla, London.

2018 Unnið úr tilfinningum og námsefni lagt á minnið með minnisteikningu. Fjórir opnir fyrirlestrar fluttir í sal ReykjavíkurAkademíunnar, Reykjavík.

2018 Processing Emotions and Memorising Coursework through Memory Drawing (Unnið úr tilfinningum og námsefni lagt á minnið með minnisteikningu). Aðalfyrirlesari. Fyrirlestur fluttur á norrænni ráðstefnu um listmeðferðir. Margbreytileiki innan skapandi listameðferða. Hótel Örk: Hveragerði.

Minni með myndum

Sjónsköpun hefur verið nýtt sem minnistækni frá því á tímum Forn-Grikkja. Tiltölulega nýlega var farið að nýta teikningar til að efla minni, til dæmis í tengslum við gerð hugkorta. Árið 2000 gerði Unnur Óttarsdóttir rannsókn sem sýndi að teikningar auðvelda minni til langs tíma.

Í erindinu er fjallað um minni með myndum í tengslum við ýmsar kenningar, rannsóknir og aðferðir. Skoðaðar eru hugsanlegar ástæður fyrir því að auðveldara er að muna myndir en orð, meðal annars út frá kenningum listmeðferðar. Einnig er fjallað um siðferðislegar spurningar út frá sjónarhorni listmeðferðar í tengslum við minnisteikningar fyrir börn sem eiga um sárt að binda.

Fyrirlestur áður fluttur

2017  Minni með myndum. Fyrirlestur fluttur í Listaháskóla Íslands á ráðstefnu um minni: Hugarflug, Reykjavík.

Ummæli

„Þakka þér fyrir áhugaverðan og skemmtilegan fyrirlestur.“

Kristín Valsdóttir, deildarforseti listkennsludeildar Listaháskóla Íslands.

Grunnfyrirlestur I: Hvað er listmeðferð?

Grunnfyrirlestur II: Listmeðferð og sköpunargleði

Grunnþætti listmeðferð

Í fyrirlestrunum er fjallað um grunnþætti listmeðferðar og tekin eru dæmi sem veita innsýn í aðferðir og hugmyndafræði meðferðarinnar. Þátttakendum sem þess óska er boðið að taka þátt í einföldu skapandi verkefni og öðlast þannig brot af þeirri reynslu og möguleikum sem listmeðferðin býður upp á. Ekki er gerð krafa um fyrri þekkingu eða reynslu af listsköpun. Fyrirlestrarnir eru ætlaðir öllum sem hafa áhuga á listmeðferð.

Vitnisburðir þátttakenda

„Fræðslufyrirlesturinn var hnitmiðaður og mjög gagnleg kynning sem opnaði fyrir mér nýjar víddir til að vinna út frá.“

Þóra Melsted deildarstjóri

„Mjög góð kynning sem gefur góða mynd af því út á hvað listmeðferð gengur.“

Ingunn M. Óskarsdóttir verkefnastjóri

„Fræðslufyrirlesturinn var áhugaverð kynning á því hvernig nota má listir og sköpun sem úrræði fyrir fólk á öllum aldri sem á við tilvistarkreppu að etja.“

Sigurgeir Birgisson deildarstjóri

„Fræðslufyrirlesturinn var gefandi og gagnlegur, sér í lagi þar sem maður getur sent inn spurningar fyrir kynninguna og fengið svör.“

Helena Línud Kristbjörnsdóttir verkefnastjóri

„Fyrirlestrarnir fengu góðar móttökur hjá báðum hópunum og vöktu fólk til umhugsunar! Ég kann vel að meta áhugann og ákafann sem þú vaktir!“

Katherine Gill, yfirkennari og umsjónarkennari með námi án aðgreiningar í Millfields Community School í Hackney

Námslistmeðferð og skrifmyndir

Í rannsóknarverkefninu um námslistmeðferð (AET) sem kynnt er í þessum fyrirlestri er námsefni fléttað inn í listmeðferð með það að markmiði að stuðla að tilfinningalegri velferð og auðvelda nám. Kenningar varðandi „skrifmyndir“ eru skoðaðar í fyrirlestrinum. Hugtakið „skrifmyndir“ vísar til teiknaðra mynda af bókstöfum og tölustöfum, sem eru hluti af aðferðum námslistmeðferðar.

Á tilteknu þroskastigi teikna mörg börn bókstafaform áður en þau öðlast þekkingu á hljóðfræði og þeim táknum sem mynda bókstafina í stafrófinu. Þetta skeið kallast „skrifmyndaskeiðið“. Í fyrirlestrinum eru kynntar leiðir til að vinna með „skrifmyndir“ með það að markmiði að endurheimta, styrkja og varðveita þann lærdómsgrunn sem lagður var á skrifmyndastiginu. Samhliða því er tilfinningaleg tjáning gegnum listsköpun skoðuð frá sjónarhorni listmeðferðar. Í fyrirlestrinum er lögð áhersla á mikilvægi þess að veita skrifmyndum barna athygli. Einnig er fjallað um hagnýta þætti skrifmynda með tilliti til meðferðar og náms. Mikilvægt er að þátttakendur hafi haft einhver kynni af listmeðferð og námslistmeðferð, til dæmis með því að sækja fyrirlestra og/eða grunnnámskeið í listmeðferð og námslistmeðferð.

Grunnþætti námslistmeðferðar

Í fyrirlestrinum er fjallað um grunnþætti námslistmeðferðar. Í námslistmeðferð er bóklegt nám samþætt listmeðferð með það að markmiði að styrkja tilfinningalegt heilbrigði og efla námsgetu. Tekin eru dæmi sem veita innsýn í aðferðir og hugmyndafræði meðferðarinnar. Fyrirlesturinn er ætlaður öllum sem hafa áhuga á námslistmeðferð, þar með talið foreldrum og fagfólki sem vinna að bættri líðan og auknum þroska fólks og/eða því að auðvelda einstaklingum nám. Æskilegt er að þátttakendur hafi grunnþekkingu á listmeðferð.

Ummæli

„Fyrirlesturinn var upplýsandi, „eye opener“. Gefinn var ákveðinn vonarneisti varðandi börn í framtíðinni sem eiga við námsörðugleika að stríða, von um að litið verði á námsörðugleika þeirra frá öðru sjónarhorni og að þau muni eiga greiðari aðgang að hjálp.“

Rakel Eva Gunnarsdóttir listmeðferðarfræðingur MSc

„Mér finnst samþætting listmeðferðar og náms, eins og kynnt var í fyrirlestrinum, virkilega áhugaverð og mjög þörf í skólakerfinu. Því er nauðsynlegt að innleiða þessa aðferð þar sem hún yrði mikill stuðningur við einstaklinginn, kennarann og allt skólakerfið.“

Elísabet Lorange, kennari og listmeðferðarfræðingur MA

Höfundaréttur © 2024 Listmeðferð Unnar · Allur réttur áskilin · Óheimilt er að nota efni síðunnar án leyfis.
cartmagnifierchevron-down linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram