Skip to content

Listmeðferð í námi I

Fyrir hverja er námskeiðið?

Námskeiðið er ætlað öllum sem hafa áhuga á listmeðferð, til dæmis einstaklingum sem hafa hug á að læra og starfa við fagið. Námskeiðið nýtist einnig fagfólki sem óskar eftir auknum skilningi á listsköpun sinni, skjólstæðinga og/eða nemenda sinna með það að markmiði að stuðla að bættri líðan, auknum þroska og/eða að auðvelda nám. Námskeiðið hentar vel fyrir einstaklinga sem starfa innan menntakerfisins.

Nánari upplýsingar

Námskeiðið er meðal annars haldið í listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Vinsamlegast hafið samband með því að senda tölvupóst á unnur@unnurarttherapy.is eða við skrifstofu listkennsludeildar Listaháskóla Íslands til að fá frekari upplýsingar.

Ummæli

Ásta Þórisdóttir, grunnskóla- og myndmenntakennari, sat listmeðferðarnámskeið fyrir 16 árum. Hún segir:

„Þekkingin frá námskeiðinu hefur nýst mér vel í gegnum tíðina í vinnu minni með börnum og unglingum og gerir enn. Ég lærði að skilja að það væri undirliggjandi mikilvæg tjáning í myndverkum barnanna og unglinganna sem ég vinn með. Fræðslan og reynslan af námskeiðinu hefur nýst mér vel til að skilja alls konar merkja- og táknmál í myndverkum.

Skilningur minn á myndverkunum hefur í sumum tilfellum opnað umræðu við nemendurna sem ég hef getað miðlað til annars fagfólks. Ég hef til dæmis getað miðlað erfiðleikunum sem börnin hafa tjáð í myndunum á teymisfundum með öðru fagfólki.

Stundum eru skýr skilaboð í myndum barnanna. Myndlistarkennari og aðrir starfsmenn eru í kjöraðstæðum til að öðlast skilning á aðstæðum og líðan einstaklinganna í gegnum myndverkin. Mér fyndist æskilegt að námskeiðið væri hluti af kennaranámi. Ég væri fyrsta manneskjan til að fara á framhaldsnámskeið í listmeðferð.“