Skip to content

Nánar um listmeðferð

Samspil mynda og orða

Í mörgum tilvikum ræðir einstaklingurinn um listsköpun sína við listmeðferðarfræðinginn. Í samtölum um listina myndast tenging á milli myndrænnar hugsunar án orða og þess að tjá myndefnið með orðum. Þegar tenging myndast milli mynda og orða getur einstaklingurinn oft virkjað áður ónýtta eiginleika innra með sér sem eykur möguleika hans á að sjá viðfangsefnin og vandann frá víðara sjónarhorni. Þess konar samspil mynda og orða gefur í mörgum tilfellum ráðrúm til að finna lausnir og vinna með þær.

Fyrir hverja er listmeðferð?

Listmeðferð hentar einstaklingum á öllum aldri sem hafa til dæmis orðið fyrir áföllum eða eiga við tilfinningalega, andlega og/eða geðræna erfiðleika, fatlanir eða líkamleg veikindi að stríða. Einstaklingar eiga í mörgum tilvikum auðveldara með að tjá flóknar tilfinningar, hugsanir og minningar með myndmáli fremur en talmáli. Þar sem stór hluti tjáningarinnar í meðferðinni er án orða hentar hún einstaklega vel fyrir börn og einstaklinga sem af einhverjum ástæðum hafa skertan málþroska. Meðferðin hentar einnig öllum þeim sem vilja vinna með tilfinningar sínar og reynslu ásamt því að þroska sjálfa sig í gegnum listræna tjáningu.

Einstaklingar sem leita til listmeðferðarfræðings glíma til að mynda við erfiðleika vegna:

 • Þungbærrar reynslu og álags
 • Áfalla
 • Ofbeldis
 • Kvíða og þunglyndis
 • Ofvirkni, athyglisbrests
 • Einhverfu
 • Fötlunar
 • Sjúkdóma
 • Námsörðugleika
 • Hegðunarerfiðleika
 • Einmanaleika og erfiðra tengsla

Menntun í listmeðferð

Menntun listmeðferðarfræðinga er á háskólastigi og samanstendur af kenningum um listsköpun, sálfræði-/sálgreiningarkenningum, reynslu og þekkingu á eigin listsköpun sem og úrvinnslu eigin tilfinninga og reynslu. Í flestum tilfellum stunda nemendur í listmeðferð persónulega meðferð. Hluti námsins felur í sér starfsþjálfun undir handleiðslu reynds listmeðferðarfræðings, sálfræðings eða geðlæknis.

Hvar er boðið upp á listmeðferð?

Listmeðferðarfræðingar vinna með einstaklingum, hópum og fjölskyldum á margvíslegum stöðum, svo sem í grunnskólum, á sjúkrahúsum, í fangelsum, á einkastofum, með öldruðum, á listasöfnum og á Stígamótum. Einnig er boðið uppá fjarlistmeðferð á veraldarvefnum.