Nánar um listmeðferð

Samspil mynda og orða

Í mörgum tilvikum ræðir einstaklingurinn um listsköpun sína við listmeðferðarfræðinginn. Í samtölum um listina myndast tenging á milli myndrænnar hugsunar án orða og þess að tjá myndefnið með orðum. Þegar tenging myndast milli mynda og orða getur einstaklingurinn oft virkjað áður ónýtta eiginleika innra með sér sem eykur möguleika hans á að sjá viðfangsefnin og vandann frá víðara sjónarhorni. Þess konar samspil mynda og orða gefur í mörgum tilfellum ráðrúm til að finna lausnir og vinna með þær.

Fyrir hverja er listmeðferð?

Listmeðferð hentar einstaklingum á öllum aldri sem hafa til dæmis orðið fyrir áföllum eða eiga við tilfinningalega, andlega og/eða geðræna erfiðleika, fatlanir eða líkamleg veikindi að stríða. Einstaklingar eiga í mörgum tilvikum auðveldara með að tjá flóknar tilfinningar, hugsanir og minningar með myndmáli fremur en talmáli. Þar sem stór hluti tjáningarinnar í meðferðinni er án orða hentar hún einstaklega vel fyrir börn og einstaklinga sem af einhverjum ástæðum hafa skertan málþroska. Meðferðin hentar einnig öllum þeim sem vilja vinna með tilfinningar sínar og reynslu ásamt því að þroska sjálfa sig í gegnum listræna tjáningu.

Einstaklingar sem leita til listmeðferðarfræðings glíma til að mynda við erfiðleika vegna:

 • Þungbærrar reynslu og álags
 • Áfalla
 • Ofbeldis
 • Kvíða og þunglyndis
 • Ofvirkni, athyglisbrests
 • Einhverfu
 • Fötlunar
 • Sjúkdóma
 • Námsörðugleika
 • Hegðunarerfiðleika
 • Einmanaleika og erfiðra tengsla

Menntun í listmeðferð

Menntun listmeðferðarfræðinga er á háskólastigi og samanstendur af kenningum um listsköpun, sálfræði-/sálgreiningarkenningum, reynslu og þekkingu á eigin listsköpun sem og úrvinnslu eigin tilfinninga og reynslu. Í flestum tilfellum stunda nemendur í listmeðferð persónulega meðferð. Hluti námsins felur í sér starfsþjálfun undir handleiðslu reynds listmeðferðarfræðings, sálfræðings eða geðlæknis.

Hvar er listmeðferð stunduð?

Listmeðferðarfræðingar vinna með einstaklingum, hópum og fjölskyldum á margvíslegum stöðum, svo sem í grunnskólum, á sjúkrahúsum, í fangelsum, á einkastofum, með öldruðum, á listasöfnum og á Stígamótum.

Listmeðferð fyrir börn og unglinga

Hefur þú áhyggjur af barni eða unglingi sem þú berð umhyggju fyrir? 

Sköpunin, ásamt því öryggi sem myndast í meðferðarsambandinu, hefur hjálpað fjölda barna og unglinga til að öðlast aukna vellíðan, finna styrk og lifa í aukinni sátt og samlyndi við sjálfa sig og aðra. Bætt líðan einstaklingsins skilar yfirleitt meiri námshæfni, auk þess sem tengslin við fjölskyldu og vini verða árangursríkari, ánægjulegri og auðveldari.

Ummæli

Móðir 11 ára drengs sem var í 18 tíma listmeðferð vegna kvíða, reiði, málerfiðleika, vanlíðunar og óæskilegrar hegðunar:

„Í listmeðferðinni vann sonur minn með vanda sinn án þess að vita alltaf beint af því. Hann teiknaði, lék sér, smíðaði og bjó til alls kyns hluti en það var allt vinnsla með vandann án þess að hann gerði sér endilega grein fyrir því. Honum fannst hann aðeins vera að teikna, búa til hluti og leika sér og í kjölfarið varð hann rólegri, leið betur, talaði skýrar og allt fór á betri veg.“ 

Kennari drengsins

„Í kjölfar listmeðferðarinnar átti drengurinn auðveldara með að einbeita sér, hann vann betur í skólanum og varð rólegri, jákvæðari og skýrmæltari.“

Móðir 7 ára stúlku komst svo að orði um listmeðferð sem dóttir hennar hafði lokið:

„… í stuttu máli sagt þá gengur allt alveg rosalega vel hjá stúlkunni. Hún er eitt sólskinsbros. En þú spurðir hvað ég hefði hugsað um listmeðferðina og hverju ég hefði átt von á þegar við byrjuðum hjá þér [móðirin var viðstödd hluta meðferðarinnar]. Ég get sagt þér eins og er að ég vissi í raun ekkert að hverju ég gekk, hafði lítið heyrt um listmeðferð en var ákveðin í að vera jákvæð því að eins og staðan var þá gekk lífið einfaldlega ekki upp. Maðurinn minn hafði meiri trú á lyfjunum sem hún var á en ég aftur á móti á samskiptunum. Hins vegar verð ég að segja að í fyrstu tímunum áttaði ég mig kannski ekki alveg á því hvað var að gerast, fannst hún tala lítið og hafði einhvern veginn búist við að þú værir með einhvern „galdrasprota“ og gætir töfrað fram algjört málæði hjá henni. Hún gæti þá sagt þér á nokkrum tímum hvað væri að. Ég skildi hins vegar fljótt að þannig gengi það ekki fyrir sig og allt hefði sinn tíma. Ég fór að sjá hvernig hún opnaði sig smám saman og allt varð auðveldara. Ég ákvað þá strax að nota allan þann tíma sem þyrfti, ekki þrýsta neinu í gegn. Ég fann líka að ég hafði rosalega gott af því að vera með, tjáskipti okkar urðu miklu auðveldari.

Ef ég yrði spurð hvort ég gerði þetta aftur ef ég lenti í sömu aðstöðu þá er ekki spurning að svarið yrði jákvætt. Ég legði á það ríka áherslu við alla að láta meðferðina taka þann tíma sem þyrfti.“

Vitnisburður um framfarir stúlku sem hafði upplifað erfiða reynslu, var óróleg, átti erfitt með að einbeita sér og var félagslega illa stödd við upphaf meðferðarinnar.

„Það hafa orðið gríðarlegar breytingar hjá stúlkunni til hins betra í kjölfar listmeðferðarinnar. Hún er rólegri, hefur betri stjórn á sér og er þroskaðri félagslega.“

Sigurborg Magnúsdóttir deildarstjóri

„Það er meiri ró og friður yfir barninu. Hún er ánægðari og glaðari. Árekstrum við önnur börn fer fækkandi.“

Brynja Aðalbergsdóttir leikskólastjóri

„Stúlkan á fleiri ánægjustundir, er jákvæðari, meira við völd, á auðveldara með að einbeita sér og er minna reið.“

Þröstur Leó J. leiðbeinandi

Listmeðferð fyrir fullorðna

Langar þig að virkja sköpunargáfu þína með listmeðferð til að bæta líðan þína og lífsfyllingu? 

Á fullorðinsárunum getur reynst erfitt að bæta slæma líðan og finna lausn á erfiðleikum. Hugsanlega má rekja ástæður vandans til erfiðrar reynslu í fortíð eða nútíð þar sem ekki hafa boðist tækifæri eða stuðningur til að vinna úr tilfinningum. Því verður reynslan þrándur í götu fremur en að hún nýtist einstaklingnum og að hann verði reynslunni ríkari.

Í listmeðferð gefast tækifæri til skapandi úrvinnslu reynslu og tilfinninga innan öryggis meðferðarsambandsins, sem hefur það að markmiði að fyrri reynsla trufli ekki lífið í núinu heldur sé uppspretta visku og styrks. Listmeðferðin veitir einstaklingnum möguleika á að komast í djúpa snertingu við það hver hann/hún raunverulega er og framkvæma í kjölfarið í samræmi við það sem bætir líðan og eykur lífsfyllingu. 

Ummæli

Fullorðin kona sem átti við alvarlegt þunglyndi að stríða.

„Ég hef notið handleiðslu Unnar Óttarsdóttur í listmeðferð um skeið og er ekki vonsvikin. Ég vissi að aðferðin væri góð leið til að nálgast börn og langaði að reyna hana á sjálfri mér. Þar sem ég hef átt erfitt með að ræða ýmsar sárar minningar sem ég hef ekki unnið úr taldi ég að þetta meðferðarform gæti ef til vill hentað mér. Ég var dálítið feimin við að teikna, lita og mála í byrjun því að ég er enginn listamaður – erfiðast var að þora að byrja – en ég komst að raun um að það skiptir akkúrat engu máli. Unnur las í innihald myndanna, ekki fegurðina. Aftur og aftur rak mig í rogastans vegna þess hve sárar tilfinningar komust upp á yfirborðið við að teikna litla mynd um atvik frá liðinni tíð. Unnur hjálpaði mér svo við að takast á við atvikin og ræða þau – „stakk á kýlið“ – þannig að ég gat horfst í augu við fortíðina og sætt mig við hana. Ég mæli hiklaust með listmeðferð.“