Nánar um námslistferð

Skrifmyndir

Námslistmeðferð byggir meðal annars á kenningum og aðferðum varðandi „skrifmyndir“ þar sem tvinnast saman bókstafir og myndir. Lestrar- og stærðfræðinám hefst hjá mörgum börnum með leik sem felur í sér teikningu skrifmynda fyrir skólagöngu. Skrifmyndanámið er sjálfsprottið og á sér stað án formlegrar kennslu. Þannig læra ung börn oft eðlilega og án áreynslu með því að teikna ýmiss konar myndir af letri. Í námslistmeðferð lærir einstaklingurinn námsefni á svipaðan hátt, eðlilega og sjálfsprottið, meðal annars í gegnum myndsköpun. Litið er á skrifmyndir sem mikilvægan grunn fyrir síðara nám. Skrifmyndaaðferðir ungra barna eru nýttar í námslistmeðferð fyrir eldri einstaklinga með námsörðugleika til að styrkja grunninn sem nám þeirra byggist á. Í námslistmeðferð fá einstaklingar sem eiga við námsörðugleika að stríða tækifæri til að leika sér að því að teikna skrifmyndir með það að markmiði að endurheimta þá námsfærni sem byggir á skrifmyndaörvuninni. Teikning skrifmynda ásamt annarri myndsköpun innan meðferðarsambandsins stuðlar að bættri líðan og aukinni námsgetu. Að auki geta skrifmyndirnar verið farvegur fyrir úrvinnslu tilfinninga á sama hátt og almennt í listmeðferð.

Minnisteikningar

Minnisteikningar eru hluti af aðferðum námslistmeðferðar. Megindleg rannsókn sem Unnur gerði árið 2000 sýndi fram á að það er fimm sinnum auðveldara að jafnaði að muna teikningar en skrifuð orð yfir lengri tíma. Minnisteikningar auðvelda fólki að leggja ýmsa námsþætti á minnið, svo sem stafsetningu orða, þýðingu erlendra orða og staðreyndir í tengslum við til dæmis landafræði. Minnisteikningar geta falið í sér eingöngu myndir en texti getur einnig tengst þeim á ýmsa vegu. Til viðbótar við að auðvelda minni geta minnisteikningar hjálpað við úrvinnslu tilfinninga og reynslu á sama hátt og listsköpun í listmeðferð. Kerfisbundin, markviss rannsókn á samanburði á áhrifum teikninga og skrifaðra orða á minni var framkvæmd í fyrsta sinn í heiminum árið 2000 eftir því sem best er vitað og Unnur stóð fyrir henni. Enn í dag hefur engin önnur rannsókn verið gerð í heiminum svo vitað sé á langtímaminni og teikningu sem nær yfir svo langan tíma. Minnisteikningarannsókn Unnar markar því tímamót í sögu listmeðferðar, náms og sálfræði í heiminum. 

Fyrir hverja er námslistmeðferð?

Námslistmeðferð hentar vel fyrir einstaklinga sem óska eftir að efla námsgetu og vinna með tilfinningar sínar í gegnum myndsköpun, meðferðarsamband og beina kennslu. Í námslistmeðferð geta einstaklingarnir unnið samhliða með tilfinninga- og námsörðugleika sem skapar hagnýtan og tilfinningalegan ávinning þar sem unnið er innan eins námslistmeðferðartíma í stað þess að sækja bæði meðferðar- og sérkennslutíma.

Umgjörð námslistmeðferðar

Umgjörð námslistmeðferðar er sú sama og í listmeðferð, þar sem meðferðaraðilinn er bundinn þagnarskyldu og skapar öruggt rými ásamt því að skjólstæðingurinn sækir meðferðina reglulega yfir ákveðið tímabil.

Ummæli:

Karlmaður, 23 ára

„Ég var í námslistmeðferð hjá Unni fyrir tíu árum þegar ég var 12 ára. Meðferðin var á mínum forsendum og hjálpaði mér að læra og líða betur. Í meðferðinni nýtti ég teikningar til að læra námsefni og tjá mig um tilfinningar. Seinna þróaði ég aðferðir á grunni þess sem ég lærði í námslistmeðferðinni þar sem ég nýtti mér myndrænt umhverfi til að ná tökum á orðum, orðasamböndum og erlendum tungumálum. Mér hefur tekist að læra mörg tungumál með þessari aðferð þrátt fyrir að ég sé lesblindur.“

Ummæli móður 11 ára drengs

„Sonur minn er með lesblindu og hefur verið hjá Unni um tíma. Hann er mjög ánægður hjá henni og þegar hún sýndi honum hvernig hann gæti nýtt sér myndlistina og enskuna saman ljómaði hann þegar tíminn var búinn.“