Skip to content

Skrifmyndir

Námslistmeðferð byggir meðal annars á kenningum og aðferðum varðandi „skrifmyndir“ þar sem tvinnast saman bókstafir og myndir. Lestrar- og stærðfræðinám hefst hjá mörgum börnum með leik sem felur í sér teikningu skrifmynda fyrir skólagöngu. Skrifmyndanámið er sjálfsprottið og á sér stað án formlegrar kennslu. Þannig læra ung börn oft eðlilega og án áreynslu með því að teikna ýmiss konar myndir af letri. Í námslistmeðferð lærir einstaklingurinn námsefni á svipaðan hátt, eðlilega og sjálfsprottið, meðal annars í gegnum myndsköpun. Litið er á skrifmyndir sem mikilvægan grunn fyrir síðara nám. Skrifmyndaaðferðir ungra barna eru nýttar í námslistmeðferð fyrir eldri einstaklinga með námsörðugleika til að styrkja grunninn sem nám þeirra byggist á. Í námslistmeðferð fá einstaklingar sem eiga við námsörðugleika að stríða tækifæri til að leika sér að því að teikna skrifmyndir með það að markmiði að endurheimta þá námsfærni sem byggir á skrifmyndaörvuninni. Teikning skrifmynda ásamt annarri myndsköpun innan meðferðarsambandsins stuðlar að bættri líðan og aukinni námsgetu. Að auki geta skrifmyndirnar verið farvegur fyrir úrvinnslu tilfinninga á sama hátt og almennt í listmeðferð.