Skip to content

Listmeðferð

Hvað er listmeðferð?

Listmeðferð er sálræn meðferð þar sem hluti tjáningar, samtals og úrvinnslu fer fram í gegnum listsköpun skjólstæðings í sambandi við listmeðferðarfræðing.

Markmið listmeðferðar

Markmið listmeðferðar er að stuðla að bættri líðan, auknum persónulegum þroska, styrk, sköpunarkrafti, jafnvægi, sjálfsþekkingu, sjálfstrausti, félagsfærni og jákvæðum breytingum í lífi þess sem sækir meðferðina.

Listsköpun

Listsköpun í listmeðferð er sjálfsprottin og frjáls og getur hún tjáð innri heim einstaklingsins; tilfinningar hans, hugsanir og reynslu. Hvorki er gerð krafa um þekkingu né færni í listum. Myndræn tjáning getur í mörgum tilfellum, betur en orð, tjáð flóknar tilfinningar, hugsanir og minningar. Einstaklingur sem glímir við vanda, tilfinningar og hugsanir færir þau verkefni út fyrir sjálfan sig yfir í myndverkið sem gerir viðfangsefnið sýnilegt og áþreifanlegt. Þessi eiginleiki listsköpunarinnar ásamt táknmálinu sem í henni birtist gefur einstaklingnum tækifæri til að tjá og skoða viðfangsefnin og tengdar tilfinningar úr viðráðanlegri fjarlægð sem auðveldar nálgun og úrvinnslu viðkvæmra tilfinninga og reynslu. Myndverkið endurspeglar sálarlíf einstaklingsins sem eykur sjálfsþekkingu hans, jafnvægi og sátt. Frumkvæði, sjálfstæði, sköpunargleði og geta til að finna skapandi lausnir virkjast í gegnum myndsköpun.

Samband skjólstæðings og listmeðferðarfræðings

Hornsteinar listmeðferðar eru sambandið á milli listmeðferðarfræðings og skjólstæðings ásamt sköpunarferlinu. Listmeðferðarfræðingurinn leitast við að hlusta, sýna skilning og aðstoða skjólstæðinginn við að skoða myndverkin, vandann og viðfangsefnin í samhengi við aðra þætti án þess að dæma. Listsköpunin sem fer fram innan meðferðarsambandsins er kærkomin nálgun þar sem mögulegt er að skoða vandann í gegnum listsköpunina frá viðráðanlegri fjarlægð. Á þann hátt skapast öryggi sem verður til þess að einstaklingurinn getur treyst meðferðaraðilanum fyrir tilfinningum sínum, hugsunum, reynslu, gleði, sigrum, ótta og hugarórum. Meðferðarsambandið stuðlar að bættri líðan, öruggari tengslamyndun, félagsfærni, sjálfsþekkingu, persónulegu innsæi, sátt, jafnvægi og styrk.

Umgjörð listmeðferðarinnar

Umgjörð listmeðferðar felur í sér að listmeðferðarfræðingurinn, sem er bundinn þagnarskyldu, býður upp á öruggt meðferðarrými þar sem næði ríkir. Skjólstæðingurinn skuldbindur sig sömuleiðis til að sækja meðferðina yfir ákveðið tímabil. Öruggur staður, regluleg meðferð í ákveðinn tíma, trúnaður, hlustun, viðhorf og viðmót listmeðferðarfræðingsins miðar að því að einstaklingurinn upplifi það öryggi sem þarf til úrvinnslu tilfinninga og reynslu.


Viðtal við Unni Óttarsdóttur í Samfélaginu þann 27. febrúar 2020.
Viðtalið hefst á mínútu 10:37


Viðtal við Unni Óttarsdóttur í Vikunni í nóvember 2000.
Viðtalið „Spegill sálarinnar” sem Unnur Jóhannsdóttir tók við Unni Óttarsdóttur fyrir tímaritið Vikuna 14. nóvember 2000. 46. tölublað, 63 árgangur bls. 10-12.