Skip to content

Námslistmeðferð

Upphaf námslistmeðferðar

Unnur Óttarsdóttir er upphafsmaður námslistmeðferðar á heimsvísu. Þróun aðferðarinnar hófst um 1994 en hún mótaðist sem heildstæð meðferðaraðferð í gegnum rannsókn sem gerð var í tengslum við doktorsnám Unnar á árunum 1999–2000. Unnur hefur skrifað um námslistmeðferðarannsóknina og birt niðurstöður sínar í mörgum helstu fræðiritunum á þessu sviði á innlendum og erlendum vettvangi. 

Hvað er námslistmeðferð?

Í námslistmeðferð er unnið á sama hátt og almennt í listmeðferð en að auki er lögð áhersla á nám. Bóknám er fellt inn í listmeðferð í gegnum myndsköpun og námsörðugleikar eru skoðaðir í samhengi við tilfinningalega þætti. Litið er á það sem einstaklingurinn segir og gerir sem tjáningu, þar með talið skólanám. Í námslistmeðferðinni er unnið með tilfinningar, reynslu, hugsanir og rökhugsun í gegnum sjónræna myndsköpun, ritun, skólanám og samtal innan meðferðarsambandsins með það að markmiði að bæta líðan og efla nám. 

Sálfræðilegir þættir

Áföll og erfiðleikar geta torveldað nám. Einstaklingar sem eiga við námserfiðleika að stríða þurfa oft að glíma við flóknar tilfinningar í tengslum við nám og skólagöngu. Tilfinningar tengdar því að ná ekki tökum á viðfangsefninu, að geta ekki fylgt jafnöldrum eftir og að vera „öðruvísi“ geta gert námið mun erfiðara. Sjálfstraustið getur einnig beðið hnekki vegna námsörðugleika. Í námslistmeðferð er unnið með tilfinningar af þessum toga.

Meðferðarsambandið

Í námslistmeðferð er myndsköpun skjólstæðingsins, tilfinningar hans og hugsanir viðurkenndar og samþykktar eins og þær eru. Listmeðferðarfræðingurinn leitast við að sýna skilning og hvatningu, meðal annars í tengslum við námið. Á þann hátt stuðlar listsköpunin og tengslin við listmeðferðarfræðinginn að auknu sjálfstrausti og bættri líðan, sem auðveldar nám. 

Listsköpunin

Í námslistmeðferð er unnið með listsköpun innan meðferðarsambandsins á sama hátt og í listmeðferð. Að auki eru nám og tilfinningaúrvinnsla tvinnuð saman í gegnum myndsköpun. Notaður er annar miðill við námið í námslistmeðferðinni en venja er; nálgunin er sjónræn og myndræn sem hentar mörgum sem stríða við námsörðugleika fremur en að námið fari aðeins fram í gegnum letur og tölustafi. Einstaklingum sem glíma við námserfiðleika gagnast oft betur að vinna út frá myndrænni hugsun en orðum og því getur námslistmeðferð hentað þeim vel. Myndsköpunin færir leik inn í námið sem gerir það viðráðanlegra og ánægjulegra.

Bóknám í námslistmeðferð

Í námslistmeðferð er bóknám fellt inn í listmeðferð í gegnum myndsköpun, beina kennslu, ritun og samtal með það að markmiði að efla skólanám og stuðla að bættri líðan. Í meðferðinni er unnið með bóknám, svo sem stærðfræði, lestur, skrift, stafsetningu, lesfög, eðlisfræði og efnafræði.