Skip to content

Námslistmeðferð

Hvað er námslistmeðferð?

Í námslistmeðferð er unnið á sama hátt og almennt í listmeðferð en að auki er lögð áhersla á nám. Bóknám er fellt inn í listmeðferð í gegnum myndsköpun og námsörðugleikar eru skoðaðir í samhengi við tilfinningalega þætti. Litið er á það sem einstaklingurinn segir og gerir sem tjáningu, þar með talið bóknámið. Í námslistmeðferðinni er unnið með tilfinningar, reynslu, hugsanir og rökhugsun í gegnum sjónræna myndsköpun, bóknám og samtal innan meðferðarsambandsins með það að markmiði að bæta líðan og efla nám. 

Upphaf námslistmeðferðar

Unnur Óttarsdóttir er upphafsmaður námslistmeðferðar á heimsvísu. Þróun aðferðarinnar hófst um 1994 en hún mótaðist sem heildstæð meðferðaraðferð í gegnum rannsókn sem gerð var í tengslum við doktorsnám Unnar innan grunnskóla á Íslandi á árunum 1999–2000. Unnur hefur skrifað um námslistmeðferðarannsóknina og birt niðurstöður sínar í mörgum helstu fræðiritum á þessu sviði á innlendum og erlendum vettvangi. 

Fyrir hverja er námslistmeðferð?

Námslistmeðferð hentar vel fyrir einstaklinga sem óska eftir að efla námsgetu og vinna með tilfinningar sínar í gegnum myndsköpun, meðferðarsamband og nám.

Bóknám í námslistmeðferð

Í námslistmeðferð er bóknám fellt inn í listmeðferð í gegnum myndsköpun, beina kennslu, nám og samtal með það að markmiði að efla skólanám og stuðla að bættri líðan. Í meðferðinni er unnið með bóknám, svo sem stærðfræði, lestur, skrift, stafsetningu, lesfög, eðlisfræði og efnafræði.

Hver er ávinningurinn af listmeðferð?

Í námslistmeðferð er bóklegt nám samþætt listmeðferð með það að markmiði að styrkja tilfinningalegt heilbrigði og efla námsgetu. Tenging tilfinninga- og vitsmunalífsins á þann hátt opnar á innra samspil á milli þessara tveggja þátta sem stuðlar að því að einstaklingurinn verður heilsteyptari. Tenging af þessu tagi er einnig valdeflandi.