Námslistmeðferð

Námslistmeðferð - Rannsókn

Námslistmeðferð - Rannsókn

Námslistmeðferðin þróaðist í rannsókn sem gerð var í tengslum við doktorsritgerð Unnar Óttarsdóttur er nefnist „Listmeðferð í skólum fyrir börn með námsörðugleika sem hafa upplifað álag og/eða orðið fyrir áföllum“. Þátttakendur í rannsókninni voru grunnskólabörn á Íslandi sem áttu við námsvanda að etja og höfðu upplifað álag og/eða orðið fyrir áföllum. Börnin voru valin með tilliti til greiningar á einkunnum og gögnum sem safnað var í viðtölum við starfsfólk skólans þar sem rannsóknin fór fram. Markmið rannsóknarinnar var að hanna, rannsaka og reyna listmeðferðaraðferð sem auðveldar skólanám og bætir tilfinningalega líðan barna.

Gögn rannsóknar

Fimm börn á aldrinum ellefu til fjórtán ára tóku þátt í rannsókninni. Safnað var rannsóknargögnum úr samtals 123 meðferðartímum með börnunum. Gögnunum var lýst samkvæmt aðferðafræði tilfellarannsóknar. Grundaðri kenningu var beitt við greiningu gagnanna sem mótaði kenningu námslistmeðferðar.

Kenning námslistmeðferðar

Kenning námslistmeðferðar byggist meðal annars á kenningum um skrifmyndir og minnisteikningu. Í meðferðinni er skólanám fellt inn í listmeðferð innan kenningafræðilegs ramma námslistmeðferðar, listmeðferðar og kennslusálfræðimeðferðar sem fjallar um orsakasamband á milli tilfinningalegra þátta og námsörðugleika.

Árangur námslistmeðferðar

Til að meta áhrif námslistmeðferðar var gerður samanburður á myndverkum, einkunnum og sálfræðiprófum í upphafi og við meðferðarlok. Niðurstöðurnar bentu til að námslistmeðferð stuðlaði að tilfinningalegu heilbrigði og að þegar meðferðin næði yfir nægilega langt tímabil auðveldaði hún skólanám.

Þrjú af þeim fimm börnum sem tóku þátt í rannsókninni og þáðu námslistmeðferðina tóku Wechsler III greindarpróf fyrir og eftir meðferðina. Prófin sýndu að greindarvísitalan var hærri hjá þeim öllum við lok meðferðar. Greindarvísitala eins barnsins var 16 stigum hærri eftir meðferðina sem er marktækur munur. Athugun á einkunnum fyrir og eftir meðferð gaf til kynna að þegar meðferðin varir í ákveðinn tíma hefur hún jákvæð áhrif á námsárangur. Foreldrar barnanna svöruðu einnig athugunarlista um atferli barnanna fyrir og eftir meðferð. Niðurstöðurnar sýndu framfarir í kjölfar meðferðarinnar hjá öllum börnunum á ýmsum sviðum hvað varðar hegðun og líðan.

Höfundaréttur © 2024 Listmeðferð Unnar · Allur réttur áskilin · Óheimilt er að nota efni síðunnar án leyfis.
cartmagnifierchevron-down linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram