Skip to content

Námskeið

Námskeið á döfinni:

Staðsetning námskeiða

Boðið er upp á fjölbreytt námskeið í Listmeðferð Unnar. Staðsetning námskeiðanna fer eftir þörfum hvers og eins, til dæmis í Listmeðferð Unnar, fyrirtækjum, stofnunum eða á öðrum stöðum eftir því sem hentar. Námskeiðin fara einnig fram í listkennsludeild Listaháskóla Íslands og við Símenntun Háskólans á Akureyri. Einnig er boðið uppá fjarnámskeið í gegnum veraldarvefinn.

Námskeiðin fela í sér

Námskeiðin byggjast á fyrirlestrum, umræðum og vinnustofum þar sem þátttakendur taka þátt í sköpunarferli og upplifa þá möguleika sem það veitir. Miðlað er þekkingu um kenningar og aðferðir listmeðferðar. Hvorki er gerð krafa um fyrri reynslu né þekkingu af listsköpun. Sköpunarferlið gefur þátttakendum tækifæri til sjálfstjáningar, eflir sjálfsþekkingu og eykur persónulegt innsæi sem hvetur til jákvæðra breytinga. Í nemendahópnum skapast tækifæri til að deila reynslu, tilfinningum og hugsunum ásamt því að upplifa samkennd og öðlast nýja sýn á eigin viðfangsefni.

Grunnnámskeið I – Hvað er listmeðferð?

Langar þig að efla sköpunargáfu þína og skjólstæðinga þinna? Viltu skilja hvernig hugsanir og tilfinningar eru tjáðar með listsköpun? Óskar þú eftir að afla þér upplýsinga um hvernig mögulegt er að auka styrk og bæta líðan með myndsköpun? Langar þig að auka skilning þinn og þekkingu á myndmáli?

Grunnnámskeið II - Grunnhugtök, aðferðir og kenningar listmeðferðar

Námskeiðið byggir á og dýpkar þá þekkingu sem miðlað er á Grunnnámskeiði I – Hvað er listmeðferð? Á námskeiðinu er gefin innsýn í aðdraganda, áhrifaþætti, uppruna og sögu listmeðferðar. Námskeiðið byggist upp á fyrirlestrum, lestri, verkefnavinnu, umræðum og vinnustofum þar sem þátttakendur upplifa persónulegt sköpunarferli og þá möguleika sem það veitir í tengslum við hugtök og kenningar listmeðferðar. Hvorki er gerð krafa um þekkingu á myndlist né reynslu af listsköpun.

Listmeðferð í námi I

Á námskeiðinu öðlast nemendur innsýn í kenningar og aðferðir listmeðferðar í gegnum fyrirlestra, lestur, skrifleg verkefni, umræður og vinnustofur þar sem nemendur taka þátt í sköpunarferli og upplifa þá möguleika sem það býður upp á. Á námskeiðinu eru kynntar myndsköpunaraðferðir sem efla sköpunargáfu, styrkja sjálfsmynd, mynda tengsl, auka félagsfærni, efla sjálfsþekkingu og bæta líðan. Þekking á eigin myndmáli eykur sjálfsmeðvitund og möguleika á að koma öðrum til hjálpar. Kynntir verða möguleikar á að nýta listmeðferð í skólum. Ekki er gerð krafa um að þátttakendur þekki til myndlistar eða hafi reynslu af listsköpun.

Listmeðferð í námi II

Á námskeiðinu öðlast nemendur innsýn í kenningar og aðferðir listmeðferðar í námi í gegnum fyrirlestra, lestur, skrifleg verkefni, umræður og vinnustofur þar sem nemendur taka þátt í sköpunarferli og upplifa þá möguleika sem það veitir. Þekking á eigin myndmáli eykur sjálfsmeðvitund og möguleika á að koma öðrum til hjálpar. Á námskeiðinu eru kynntar myndsköpunaraðferðir sem efla sköpunargáfu og námsgetu, styrkja sjálfsmynd, efla sjálfsþekkingu og bæta líðan. Kynntar eru hugmyndir, kenningar og aðferðir til að nýta listmeðferð í tengslum við nám.

Fjallað er um hugtakið „skrifmyndir“ sem felur í sér teiknaðar myndir af bók- og tölustöfum. Einnig er hugtakið „skrifmyndastig“ kynnt en það er tímabil þegar börn gera tilraunir með að teikna skrifmyndir. Kynntar eru kenningar og aðferðir til að vinna með skrifmyndir með það að markmiði að endurheimta og styrkja þann námsgrunn sem felst í skrifmyndaörvuninni.

Listmeðferð fyrir fólk sem hefur orðið fyrir áföllum

Á námskeiðinu öðlast nemendur innsýn í þætti listmeðferðar sem ætluð er fyrir fólk sem hefur orðið fyrir áföllum. Á námskeiðinu er meðal annars fjallað um dæmi úr listmeðferð sem lýsir því hvernig sköpun innan meðferðarsambands í listmeðferð getur hjálpað fólki að öðlast styrk, lífsgleði og von þrátt fyrir erfitt áfall. Námskeiðið byggist upp á fyrirlestrum, umræðum og vinnustofum þar sem þátttakendur taka þátt í sköpunarferli og upplifa þá möguleika sem það veitir.