Listmeðferð Unnar

Unnur kynnir nýja meðferðar - og menntunaraðferð á Ítalíu

Teikning auðveldar minni, eflir nám og stuðlar að velferð

Reykjavík, 22. maí 2023 - Dr. Unni Óttarsdóttur var boðið að vera aðalfyrirlesari á alþjóðlegri ráðstefnu á Ítalíu sem tileinkuð var sköpunargáfu og skipulögð af ítalskri tilraunastofu um rannsóknir og hæfileika (LabTalento) við Háskólann í Pavia. Fyrirlesturinn var vel sóttur m.a. af sálfræðingum og kennurum sem tóku þátt í teikni- og skrifæfingu til að greina mismuninn á að muna með því að teikna annars vegar og skrifa hins vegar. Niðurstöður sýndu fram á að helmingur þátttakenda á fyrirlestrinum mundi fleiri teikningar en orð, tæplega helmingur mundi jafn mörg teiknuð orð og skrifuð. Aðeins einn þátttakandi mundi fleiri skrifuð orð en teikningar. Einnig var fjallað um hvernig minnisteikning getur aðstoðað við úrvinnslu viðkvæmra og flókinna tilfinninga tengdum áföllum.

Unnur kenndi einnig listmeðferðarfræðingum sem starfa í skólum á námskeiðinu „Listmeðferð og nám: Námslistmeðferð“ og haldið var af Art Therapy Italiana. Fjallað var um námslistmeðferð sem Unnur hefur rannsakað og þróað, þar sem listræn tjáning er notuð bæði í menntunar- og meðferðarlegum tilgangi. Aðferðin var kynnt með verklegum æfingum, umræðum, vísindagreinum og fyrirlestrum í tengslum við grunnhugtök eins og „minnisteikning“ sem auðveldar minni og úrvinnslu tilfinninga. Þátttakendur voru almennt ánægðir með kennslu Unnar og aðferðir námslistmeðferðarinnar sem felur meðal annars í sér að tengja saman tilfinningaúrvinnslu og nám barna í gegnum teikningar. 

Unnur hefur stundað rannsóknir á listmeðferð, minnisteikningu og námslistmeðferð um árabil. Hún hefur birt greinar og bókarkafla um efnið, flutt fyrirlestra og kennt við háskóla hérlendis og erlendis. Unnur situr um þessar mundir í stjórn rannsóknarnefndar félags Listmeðferðarfræðinga í Evrópu (EFAT).

Grein um rannsóknir Unnar sem nefnist „Unnið úr tilfinningum og námsefni lagt á minnið með minnisteikningu“ kom út í íslenskri þýðingu hjá ATOL: Art Therapy OnLineRannsókn Unnar var fyrsta kerfisbundna, markvissa rannsóknin sem gerð var í heiminum á samanburði á áhrifum teikningar og skrifaðra orða á minni árið 2000, eftir því sem best er vitað. Enn í dag hefur engin önnur rannsókn verið gerð í heiminum svo vitað sé á langtímaminni og teikningu sem nær yfir svo langan tíma eins og níu vikur. Í rannsókninni voru 134 þátttakendur beðnir um að teikna merkingu orða og skrifa orð niður. Þátttakendur mundu að jafnaði tvö skrifuð orð á móti fimm teikningum eftir þrjár vikur og fimm teikningar á móti einu skrifuðu orði eftir níu vikur. Til viðbótar framkvæmdi Unnur tengda rannsókn með fimm börnum sem höfðu upplifað álag eða orðið fyrir áföllum og áttu við námserfiðleika að etja. Þau teiknuðu meðal annars til að leggja námsefni á minnið. Í teikningum barnanna mátti greina vísbendingar um að þau væru að vinna úr tilfinningum sem tengdust erfiðleikum eða áföllum. 

Unnur Óttarsdóttir gefur kost á viðtölum um listmeðferð, námslistmeðferð, minnisteikningu og rannsóknir hennar. Vinsamlegast hafið samband við Unni með tölvupósti á unnur@unnurarttherapy.is eða í síma 8670277, til að óska eftir viðtali.

Unnur kynnir nýja meðferðar - og menntunaraðferð á Ítalíu

Myndatexti, frá vinstri: 
Camelia Corlatanu, læknir, listmeðferðarfræðingur, ítalskur þýðandi á námskeiðinu 
Dr. Unnur Óttarsdóttir, listmeðferðarfræðingur, kennari, myndlistamaður, rannsakandi 
Mimma Della Cagnoletta, listmeðferðarfræðingur, sálgreinir, listamaður, stofnandi Art Therapy Italiana

https://www.einpresswire.com/article/642665725/global-researcher-introduces-new-therapeutic-educational-method-utilizing-art-in-italy

Höfundaréttur © 2024 Listmeðferð Unnar · Allur réttur áskilin · Óheimilt er að nota efni síðunnar án leyfis.
cartmagnifierchevron-down linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram